27.4.2007 | 13:46
Yfir strikið
Auglýsingin sem birtist í Fréttablaðinu í morgun frá Samfylkingunni fór langt yfir strikið. Þar stendur: ,,Skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar kemur best í ljós þegar börnin opna munninn. Tannheilsa íslenskra barna er nú orðin sú versta á Norðurlöndunum enda hafa 8.500 börn ekki farið til tannlæknis í þrjú ár. Fimmta hvert barn á grunnskólaaldri fær óviðunandi tannlæknisþjónustu vegna fátæktar foreldra samkvæmt athugun landlæknis Útgjöld heimilanna vegna tannlæknakostnaðar hafa aukist um 40% í tíð núverandi ríkisstjórnar. Kjósum tannpínuna burt. Samfylkingin vill ókeypis tannvernd fyrir öll born". Og svo er mynd af sárþjáðu tannpínubarni. Ég hef ýmislegt við þessa auglýsingu að athuga, t.d. við vörpum ekki ábyrgðinni af umönnun barna bara si sona yfir á ríkisstjórn. Foreldrar bera ábyrgð á tannheilsu barna sinna með skynsamlegu mataræði og að tennur séu hreinsaðar vel og vandlega á hverjum degi. Reglubundið eftirlit hjá tannlækni t.d. einu sinni til tvisvar á ári, kostar ekki þá upphæð að folk sem á eitt til tvö born sem algengast er geti ekki séð af þeim fáu þúsundköllum sem heimsókn til tannlæknis vegna eftirlits kostar. Mínir strákar eru komnir til fullorðinsára með allar tennur heilar og óviðgerðar og það er ekki ríkisstjórninni að þakka. Ég burstaði tennur þeirra sjálf til tíu ára aldurs og fylgdist með tannburstuninni eftir það þangað til ég var viss um að þeir gerðu þetta nógu vel. Það kostaði ekkert nema einn sentimetra af tannkremi í hvert skipti. Áróður undanfarin ár hefur beinst að því að halda tönnum barna heilum a.m.k. til tólf ára aldurs, ekki að láta tennurnar skemmast og gera svo við. Viðgerðir á tönnum barna á að heyra til undantekninga og þar bera foreldrar auðvitað ábyrgðina, ekki ríkisstjórnin. Hvaða dómadags endemis kjaftæði er þessi auglýsing. Ég spyr í einfeldni minni: Vilja foreldrar setja ábyrgðina á uppeldi og umönnun barna sinna í hendurnar á einhverju opinberu bákni, trúir folk að með því að kjósa tiltekinn stjórnmálaflokk sé það stikkfrí að hugsa um börnin sín og tannheilsu þeirra. Meðan skólatannlæknar störfuðu var fullt af fólki sem kaus að fara með börnin sín til annarra tannlækna, til tannlækna sem ráku sínar einkatannlæknastofur þrátt fyrir að kostnaður væri töluvert meiri. Hvetjum foreldra til að taka ábyrgð, ekki að finna sökudólg.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.